Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 547  —  253. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020 (framhald lokunarstyrkja).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Benedikt Hallgrímsson og Elísabetu Júlíusdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Kristján Gunnarsson frá Skattinum, Jóhannes Þór Skúlason frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda og Jónu Fanneyju Svavarsdóttur og Laufeyju Guðmundsdóttur frá Samstöðuhópi einyrkja og lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu.
    Umsagnir bárust frá Félagi atvinnurekenda og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að gildistími lokunarstyrkja samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, verði framlengdur til 30. júní 2022. Að auki eru lagðar til nokkrar minni háttar breytingar. Lokunarstyrkjum er ætlað að mæta tekjufalli rekstraraðila sem hefur verið gert að loka eða stöðva starfsemi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997. Styrkirnir koma til viðbótar viðspyrnustyrkjum og styrkjum samkvæmt lögum um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkun á opnunartíma.

Umfjöllun nefndarinnar.
Skilyrði lokunarstyrkja.
    Í 4. gr. laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru er kveðið á um skilyrði lokunarstyrkja. Samkvæmt lokamálslið 1. tölul. 4. gr. getur rekstraraðili, að öðrum skilyrðum uppfylltum, átt rétt á lokunarstyrk hafi honum verið gert að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu tímabundið vegna ákvarðana heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem birtar voru á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997, og tóku gildi 18. september 2020 eða síðar.
    Í umsögn Félags atvinnurekenda kemur fram það sjónarmið að Skatturinn og yfirskattanefnd hafi lagt til grundvallar óþarflega þröngt mat á því hvaða rekstraraðilar teldust uppfylla framangreind skilyrði um lokun. Hafi því rekstraraðilar sem töldu sér ekki annað fært en að loka þar sem þeir gátu ekki haldið starfsemi sinni úti vegna fyrirmæla um samkomutakmarkanir og nálægðarreglu og fyrirtæki sem töldu sig falla undir fyrirmæli sóttvarnayfirvalda um lokun eða stöðvun á starfsemi fengið synjun á umsókn sinni.
    Meiri hlutinn bendir á að upp geta komið upp tilvik þar sem vafi kann að vera á um hvort rekstraraðili uppfylli skilyrði styrkjanna, t.d. um það hvort rekstraraðila hafi samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda verið gert að loka. Því er mikilvægt að fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda séu sem skýrust til að koma í veg fyrir réttaróvissu. Lokunarstyrkir taka hins vegar eðli máls samkvæmt eingöngu til þess þegar rekstraraðila hefur beinlínis verið gert að loka eða stöðva starfsemi. Öðrum úrræðum, svo sem viðspyrnustyrkjum, hefur verið ætlað að mæta tekjufalli sem leiðir m.a. af öðrum takmörkunum sem rekstraraðilar hafa sætt. Fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda um takmörkun á starfsemi, svo sem fjöldatakmörkun eða nálægðarregla, hafa mismunandi áhrif á ólíka starfsemi, og bendir meiri hlutinn í því sambandi á að fjárhæð viðspyrnustyrkja samkvæmt lögum nr. 160/2020 tekur mið af tekjufalli rekstraraðila. Samhliða máli þessu hefur nefndin til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um viðspyrnustyrki, nr. 160/2020 (framhald viðspyrnustyrkja), 291. mál, þar sem lagt er til að tímabil viðspyrnustyrkja verði framlengt til 1. apríl 2022. Verði það frumvarp að lögum munu rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli vegna sóttvarnaráðstafana og samkomutakmarkana eiga þess kost að sækja um styrki vegna tekjufalls frá 1. apríl 2020 til 1. apríl 2022.

Breytingartillaga meiri hlutans.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á orðalagi c-liðar 2. gr. frumvarpsins. Breytingin er tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „rekstraraðila verið ákvarðaður styrkur til rekstraraðila veitingastaða“ í c-lið 2. gr. komi: rekstraraðila veitingastaðar verið ákvarðaður styrkur.

    Ágúst Bjarni Garðarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir nefndarálitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 22. febrúar 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form.
Ágúst Bjarni Garðarsson,
frsm.
Diljá Mist Einarsdóttir.
Guðbrandur Einarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Eva Dögg Davíðsdóttir.